Frumkönnun á spænskunámi

Í sambandi við fyrirspurnir varðandi spænskunám var farið í að kanna fyrirkomulag náms við opinbera tungumálaskólann (La Escuela Oficial de Idiomas) í Torrevieja. Hringt var í skólann (í síma 966 926 840) og fengnar helstu upplýsingar varðandi spænskunám á grunnstigi. Kom í ljós að vert er að sækja um að komast að í skólanum, því námskeiðsgjaldið er einungis 96 evrur fyrir nám frá hausti til vors. Um er að ræða kennslu tvo tíma fjórum sinnum í viku, þ.e. alla virka daga nema föstudaga – átta tíma á viku.

Skólinn er við calle Eugenio Segarra Torregrosa, 1 í Torrevieja. Skrifstofa skólans er opin virka daga frá kl. níu til hálf tvö og kannski vert að gera sér ferð þangað til að fá nánari upplýsingar í rólegheitum. Fyrir þá, sem ekki eru komnir með N.I.E. númer, er hægt að skrá sig í námið með því að framvísa vegabréfi, en eftir að skólavist hefur verið samþykkt þarf að útvega ýmist N.I.E. númer eða dvalarleyfi (persmiso de residencia). Skjöl með N.I.E. númerinu frá síðustu árum (þar sem stendur neðst til hægri: „Caduca en tres meses“) rennur út á þremur mánuðum og því þarf að endurnýja það ef dagsetning þess er eldri en sem því nemur.

Ekki er tryggt að allir komist að sem sækja um. Því er fyrst um að ræða leggja inn umsókn/forskráningu (preinscripción) á netinu frá 25. júní nk. til 15. júlí fyrir skólavist veturinn 2015-2016. Séu umsækjendur fleiri en plássið leyfir verður dregið úr umsóknunum. Enn sem komið er, þá er athugun á vefsvæðinu á frumstigi og fengust þær upplýsingar að ekki verði sett inn neitt varðandi umsóknir fyrr en 25. júní. Verður frekari upplýsingum komið hér fyrir eftir því sem þeirra hefur verið aflað.

Uppfært 26. júní.

Nú hefur verið sett inn á vefsvæðið ferli til að forskrá sig/sækja um skólavist. Þegar smellt hefur verið á hlekkinn birtast bæjarnöfn og þeir sem búa nálægt Torrevieja velja eðlilega þann valkost á listanum. Á næstu síðu kemur texti og er m.a. vísað í leiðbeiningar á spænsku (sjá Google-translate) og er hakað við „I agree“ til að samsinna því sem þar kemur fram og halda áfram. Taka þá við form á ensku fyrir persónulegar upplýsingar og ætti það að skýra sig sjálft. Frestur til að forskrá sig/sækja um er til 15. júlí.

Profile photo of Frá stjórn Félags húseigenda á Spáni
About Frá stjórn Félags húseigenda á Spáni 167 Articles
Stjórnarskilaboð stjornfhs123