SAGA FÉLAGSINS

Árið 1987 höfðu nokkrir aðilar keypt sér hús á suðurströnd Spánar. Dýrt var og erfitt að komast þangað. Því gerðist það að hópur sem keypt hafði hús af Páli nokkrum, og síðar Guðmundi Óskarssyni hf, tók sig saman og myndaði samtök til að reyna að semja við Flugleiðir og ferðaskrifstofur um ódýrar ferðir.

Fyrir þessum hópi fóru Sigurður G. Steinþórsson, Hólmfríður Þorsteinsdóttir og Þorsteinn Bjarnarsson. Illa gekk framan af að semja við áðurnefnda aðila, en árið 1988 tókst loks að semja við Ferðaskrifstofu Reykjavíkur um nokkur föst sæti með þeim í flugi Arnarflugs til Alicante. Þetta heppnaðist ágætlega miðað við aðstæður og var þetta endurtekið sumarið 1989. Þeir einstaklingar sem stóðu að þessum samningum fundu að samningsstaðan var ekki nógu sterk og hópurinn of fámennur til frekari og betri samninga.

Í framhaldi af því var ákveðið að hafa samband við Leif Karlsson, sem einnig var að selja hús á sömu slóðum á Spáni, og fá hann og hans fólk til samstarfs við hópinn. Leifur tók því vel og var í framhaldinu ákveðið að stofna formlega til félagsskapar – „Félag húseigenda á Spáni“.

Auglýstur var stofnfundur félagsins í Morgunblaðinu í byrjun nóvember og var pöntuð fundaraðstaða í Þingholti, Hótel Holti. Þeir sem að því stóðu voru hálfhræddir um að þeir hafi verið full stórtækir í að panta Þingholtið undir fundinn, kannski myndu 10-15 manns mæta í 80 manna sal. Var því hringt í alla sem til voru á skrám.

Þegar dagurinn rann upp krossbrá aðstandendum fundarboðsins, því salurinn fylltist fljótt af fólki og mikill fjöldi varð að standa frammi í forsalnum. Mönnum hafði aldrei dreymt um að svo mikill fjöldi myndi mæta á fundinn. Þetta sýndi hins vegar þann mikla áhuga og þörf sem var á félagi sem þessu.

Félagið var síðan stofnað formlega þennan eftirmiðdag, þann 12. nóvember 1989, af miklum einhug.

Frá stofnuninni hefur félagið þróast og dafnað og félagsmenn hafa verið allt að sjöunda hundrað félagsmanna en voru 325 í fyrra 2017.  Félagið hefur haldið ráðstefnu frá árinu 2005 um málefni húseigenda á Spáni og er hún í tengslum við aðalfund og grísaveislu og er haldin í febrúar ár hvert, auk spjallfunda bæði hér heima og á Spáni.

Þungamiðja félagsins er sem fyrr samningar um fargjöld þegar það á við en í krafti fjöldans er samningsstaðan sterkari, auk þess hefur félagið samið um bílaleigubíla, afslætti ofl. á Spáni og á Íslandi fyrir sína félagsmenn.

Frá árinu 1993 hefur verið starfsmaður á Spáni á vegum félagsins til að aðstoða félagsmenn og gesti í húsum þeirra t.d. vegna læknisþjónustu, sjúkrahúsdvalar og annars sem fólk þarf á að halda.

Stjórnir félagsins hverju sinni halda a.m.k. 10 fundi árlega auk aðalfunda og senda póst til allra félagsmanna víða um land um alla samninga og hvers konar breytingar sem eiga sér stað.

Formenn félagsins hafa verið sem hér segir:

  • Sigurður G. Steinþórsson 1989 – 1992
  • Jón Steinn Elíasson 1992 – 1998
  • Stefán Stefánsson 1998 – 2000
  • Ari Ólafsson 2000 – 2004
  • Guðmundur Hreiðarsson 2004 – 2007
  • Gísli Breiðfjörð Árnason 2007 – 2011
  • Sigurður Þ. Ragnarsson 2011 – 2012
  • Bjarni Jarlsson 2012 – 2013
  • Sigurður Þ. Ragnarsson 2013 – 2014
  • Ómar Örn Karlsson 2014 – 2017
  • Víðir Aðalsteinsson 2017 – 2019
  • Jón Hólm Stefánsson 2019 – 2022
  • Ólafur Magnússon 2022 –

Öryggis & þjónustufulltrúar félagsins á Spáni hafa verið sem hér segir:

  • Ágústa Pálsdóttir 1993 – 2001
  • Baldvin Smári Matthíasson 2001 – 2003
  • Sveinn Arnar Nikulásson 2003 – 2016
  • Hanna María Jónsdóttir 2017 – 2018
  • Ásgerður Ágústa Andreasen 2018 -2020
  • Jóhanna Soffía Símonardóttir 2018 -2019
  • Már Elíson 2020 –