Aðsend grein frá gönguklúbbnum í Las Mimosas

Eftirfarandi grein kom frá FHS félaga Niels Karlssyni.  Gaman að fá fréttir af  viðburðum sem íslendingar standa fyrir á Spáni og við tökum fagnandi öllum svona greinum og birtum hér á vefnum okkar sem er m.a. til þess að segja frá hverskonar viðburðum á Spáni.  Endilega sendið okkur greinar á netfangið umsjon@beta.turteldufur.is og við birtum hér á vefnum.

Fjöldi Íslendinga dvelur vetrarlangt sunnan við Torrevieja á Spáni og er félagslíf þeirra mikið og gott. Meðal annars er starfandi gönguhópur (sjá facebook-síðuna Gönguklúbburinn í Las Mimosas) og er gengið þrisvar í viku. Yfirleitt fara um 30 manns saman í gönguna sér til andlegrar og líkamlegrar styrkingar. Sumir láta það sér ekki nægja heldur skipuleggja öðru hvoru lengri gönguferðir. Ein slík var farin sl. fimmtudag (30. mars) í þjóðgarðinum Parque Regional Calblanque sem liggur með ströndinni milli Cartagena og La Manga. Um var að ræða að hluta til óvissuferð því ekki vitað mikið annað um gönguleiðina en upphafs og endastað. Tólf félagar tóku þátt í göngunni. Þeir voru frá 64 ára til 75 ára, meðalaldurinn um 70 ár. Haldið var af stað kl. 9 í fjórum bílum. Einn var skilinn eftir þar sem gangan átti að enda og haldið í hinum þremur að upphafsstaðnum. Gangan hófst um hálf ellefu og í fyrstu var gengið eftir þægilegum vegaslóða upp á um 340 m hátt fjall. Efst voru leifar hernaðarmannvirkja frá fyrri hluta 4. áratugar síðustu aldar, m.a. tvær öflugar fallbyssur (18 m hlauplengd, 88 tonn að þyngd og drægni 35 km). Útsýnið var stórfenglegt, eins það reyndar var alla leiðina. Gert hafði verið ráð fyrir að gangan í heild tæki um 4 klst og að gengið yrði um 13.5 km. Talið var að frá fyrsta fjalli væri leiðin að mestu niður á við eftir þægilegum göngustígum í átt að baðströnd þar sem gangan tæki enda. Reyndin varð önnur. Ferðin tók 7-8 klst og trúlega voru gengnir 16-17 km. Strax þegar haldið var út af vegaslóðanum tók við þröngur brattur stígur, erfiður yfirferðar og varasamur. Ferðafélagar töldu víst að þessi stígur myndi enda fáeinum tugum metra neðar en reyndin var sú að hann hélst að mestu óbreyttur næstu 15 km. Í stað einfaldrar þægilegrar göngu var farið upp og niður ótal fjöll, m.a. tvö önnur sem voru um 300 metra há. Gangan reyndi nokkuð á göngumenn og fætur sumra urðu heldur lúnir þegar leið á hana. Stígarnir voru vel merktir en að mestu einstigi með töluverðri lausamöl og steinum. Allan tímann þurfti að hafa fulla athygli hvar stigið var því annars hefðu afleiðingarna getað orðið alvarlegar í snarbrattri fjallshlíð. Hins vegar var gróður og umhverfi allt stórkostlegt og oft staðnæmst til að dást að náttúrunni. Meðfylgjandi myndir segja meira en mörg orð. Klukkan var um 6 þegar baðströndin birtist loks og lúnir fætur kældir í sjónum. Allir ótrúlega ánægðir og þreytan gleymdist um sinn. Farið var með 3 bílstjóra í bílnum sem skilinn var eftir og hinir bílarnir sóttir. Heim í hús voru ferðalangar komnir kl 8 um kvöldið. Ævintýralegum, erfiðum en skemmtilegum degi lokið í frábærum vinahópi. Þegar er farið að skipuleggja framhald þessarar ferðar og hefst sú ganga þar sem þessi endaði og gengið lengra til austurs. Það verður einungis skemmtiganga þar sem landslagið er ekki jafn hæðótt. Allir hlakka til.

https://www.facebook.com/bjarni.jensson/videos/1427898700618103/

https://www.facebook.com/bjarni.jensson/videos/1427898937284746/

 

 

Deila: