Hringtorg á Spáni

Akstur á hringtorgum á Spáni

Eins og margir húseigendur og ferðamenn á Spáni hafa komist að, þá mun ytri hringur eiga forgang í hringtorgum. Er það öfugt miðað við íslensk umferðarlög, þar sem innri hringurinn á forgang.              Það er þó mál manna á Spáni að fæstir ökumenn virðist vita hvernig á að haga sér í hringtorgi þrátt fyrir hina almennu vitneskju um forgang þeirra, sem eru í ytri hring. Sú skoðun kemur a.m.k. fram í pistli á Facebook umferðarstofunnar á Spáni og vísar jafnframt til greinar á infocoches.com. Þar kemur nokkuð vel fram hvernig ber að haga akstri í hringtorgum á sem öruggasta hátt. Á myndinni eru sýndar helstu aðstæður og merkt er við með „BIEN“ þar sem vel er gert og með „MAL“ þar sem miður fer. Myndin stækkar við að smella á hana.

– Sé ætlunin að fara út úr hringtorgi á fyrstu útkeyrslu skal aka inn í hringtorgið á hægri akrein og inn á ytri hring, gefa stefnuljós í tíma og beygja út úr hringtorginu á hægri akrein útkeyrslunnar. Þetta ætti að vera augljóst fyrir hvern og einn og þarf tæplega að leiðbeina um það sérstaklega (sjá bláa bílinn og bláu línuna efst hægra megin á myndinni).

– Sé ætlunin að fara út úr hringtorgi á annarri útkeyrslu, skal bera sig á sama hátt og þegar ætlunin er að fara út úr hringtorginu í fyrstu útkeyrslu – þ.e. halda sig hægra megin og í ytri hring. Gefa skal stefnuljós um leið og komið er fram hjá fyrstu útkeyrslu (blár bíll og blá lína vinstra megin á myndinni).

– Sé ætlunin að fara út úr hringtorgi á þriðju útkeyrslu, skal hins vegar aka inn í hringtorgið á vinstri akrein og halda sig í innri hring. Gefa skal stefnuljós og skipta um akrein inni í hringtorginu, þ.e. færa sig yfir í ytri hring (ef aðstæður leyfa) þegar keyrt hefur verið fram hjá útkeyrslunni þar á undan og beygja út úr hringtorginu á hægri akrein útkeyrslunnar (grænn bíll á grænni línu). Taka skal aukahring ef aðstæður krefja.

Að auki eru á myndinni sýnd tvenns konar dæmi um óæskilega hegðun í hringtorgi. Fyrra dæmið eru bílar á innri akrein að keyra í veg fyrir bíla á ytri akrein og rakleitt af innri hringnum og út úr hringtorginu (rauðir bílar á rauðum línum). Þetta er hins vegar er viðurkenndur akstursmáti samkvæmt íslenskum umferðarlögum. Síðara dæmið telst óæskilegt, hvort heldur er á Spáni eða á Íslandi. Þar er bíll sýndur keyra því sem næst í beinni línu í gegnum hringtorgið (gulur bíll á gulri línu).

Leiðbeiningarnar í þessari grein er lauslega þýddar úr spænsku af grein á infocoches.com.

Höfundur greinar:  Sveinn Arnar Nikulásson

Deila: