FJALLHRESS Á SPÁNI

Síðustu tvo vetur hefur um 15 manna hópur Íslendinga gengið styttri og lengri leiðir um fjalllendi Spánar sér til andlegrar og líkamlegrar heilsubótar. Við höfum stofnað gönguklúbb um þessar ferðir sem ber heitið Fjallhress á Spáni. Flest erum við komin á aldur, búum veturlangt á Spáni og viljum njóta lífsins á heilbrigðan hátt í langa fríinu okkar.

Í vor fórum við þrjár fjögurra daga gönguferðir. Sú fyrsta var í mars í fjöllunum ofan við Benidorm, en önnur í apríl í fjöllum Mallorca (50 km gengnir með um 2000 m hækkun). Síðasta ferðin var svo í maí í fjöllum Andalúsíu. Meðal annars var þá gengin leiðin Caminito del Rey (göngustígur konungs), sem eitt sinn var kölluð hættulegasta gönguleið í heimi, en var síðan endurbyggð árið 2015 í kjölfar fjölmargra dauðsfalla og er nú talin örugg. Veður var frábært og náttúran skartaði sínu fegursta. Gengnir voru um 9 km, að hluta til utan í lóðréttum hamraveggjum djúpra gljúfra, en einnig um fallegt skóglendi. Öll vorum við sammála um að þessi leið hafi verið sú magnaðasta sem við höfum farið og hreint ólýsanleg. Ég læt nokkrar myndir fylgja og þær tala sínu máli. Við erum strax farin að skipuleggja ferðir næsta vetur.

                 

 

Deila: