Dagsferð til Ricote-dalsins
✴︎ Ricote
dalurinn
— 16.04.2025
Þá er komið að fyrstu dagsferðinni í ár hjá ferðaklúbbi FHS. Við ætlum að fara til Ricote dalsins (Valle de Ricote) í Murcia héraði og síðan að heimsækja Helgidóm meyjar vonarinnar (Santuario Virgen de la Esperanza) í nágrenni Calasparra.
Við förum miðvikudaginn 16. Apríl 2025
Mæting er kl. 9 á stóra planinu hjá Zenía mollinu og kl. 9:15 hjá lögreglustöðinni í Torrevieja og kl. 9:30 hjá La Marína.
Fjögurra rétta hádegisverður með víni, vatni eða bjór er innifalinn í verðinu, sem verður á glæsilegum veitingastað við hliðina á helgidómnum.
Verð á mann fyrir ferðina er 60 Evrur.
Miðasala föstudaga á hittingum FHS á Ivy bar.
Einnig verður hægt að panta í ferðina hjá fararstjóranum Jóni Hauki Sigurðssyni í síma +34 688 44 3609 eða í tölvupósti á jo*********@gm***.com.
Valle de Ricote er oft kallaður leynidalurinn. Ef það er einhver staður á Spáni þar sem við getum fundið fyrir arabískum áhrifum, þá er það í Ricote dalnum. – Margir smábæir sem standa við bakka Secura árinnar og færa okkur inn í óraunverulegan heim. Hinn frjósami jarðvegur dalsins er akkeri arabískrar hefðar og sögu sem sýnir hvað miklar framkvæmdir í áveitum um dalinn hafa haft mikið að segja á margan hátt. Við bakka árinnar er allt mögulegt ræktað og sjáum við endalausa akra ávaxtatrjáa og margskonar grænmetisakra.
Við munum stoppa smástund í bænum Albarán, þar sem við skoðum vatnsmylluhjól sem er það stærsta í Evrópu smíðað árið 1805.
Síðan förum við að heimsækja helgidóm „meyjar vonarinnar“ sem er um 6 km. fyrir utan bæinn Calasparra.
Helgidómurinn er alveg einstakur staður, hellir sem er grafinn út úr klettavegg við Secura ána upphaflega af ánni sjálfri fyrir þúsundum ára. Þegar áin var mikið hærra í landinu og síðan um árið 1600 þegar lítil stytta af Maríu mey fannst í hellinum, þá var hellirinn stækkaður og gerð kapella á staðnum.
Þetta er alveg stórkostlegur og fallegur staður sem við heimsækjum.
Þetta er ferð sem enginn má missa af og verður án efa ógleymanleg.