LÖG FÉLAGSINS

 1. gr. Heiti

Félagið heitir Félag húseiganda á Spáni. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur

Tilgangur félagsins er að vinna að sameiginlegum hagsmuna- og áhugamálum húseigenda á Spáni, efla samheldni þeirra, stuðla að sem hagstæðustu ferðum milli Íslands og Spánar og koma fram fyrir hönd félagsmanna í samningum.

3. gr. Aðild

Félagsmenn geta þeir orðið sem eiga eða hyggjast eignast húsnæði á Spáni. Stjórnin skal halda skrá yfir félagsmenn.

4. gr. Úrsögn

Ef félagsmaður greiðir ekki árlegt félagsgjald telst það úrsögn úr félaginu.

5. gr. Stjórn

Stjórn félagsins skipa fimm aðalmenn og tveir til vara. Formaður skal kosinn á aðalfundi til eins árs í senn. Kjósa skal fjóra aðalmenn til setu í tvö ár og tvo til vara til eins árs á aðalfundi félagsins þannig að á hverju ári skal kjósa formann, tvo aðalmenn og einn varamenn, sem skipta með sér verkum.

Framboð til stjórnarkjörs þarf að berast stjórninni eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund.

Stjórn stýrir málefnum félagsins milli aðalfunda og ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Hún ræður starfskrafta að félaginu eins og nauðsynlegt þykir og fjárhagur leyfir.

6. gr. Aðalfundur

Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en í lok mars ár hvert og skal boða hann með minnst tíu daga fyrirvara.

Fundarboði skal fylgja dagskrá og tillögur til lagabreytinga hafi þær borist stjórn fyrir tilsettan tíma.

Stjórn félagsins skipuleggur og ber ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd aðalfundar.

Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.

Atkvæðisrétt á aðalfundi hefur sá félagsmaður sem hefur gilt félagsskírteini.

Mæti aðili sem ekki er í félaginu til aðalfundar í umboði félagsmanns í þeim tilgangi að fara með atkvæðisrétt hans skal viðkomandi aðili hafa skriflegt umboð frá félagsmanni með undirskrift hans og vottað af tveimur fullgildum vottum. Skal umboðinu framvísað til fundarstjóra áður en atkvæðagreiðsla hefst.

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála annarra en lagabreytinga.

Lagabreytingar fara aðeins fram á aðalfundi og skulu tillögur um lagabreytingar berast stjórn a.m.k. 30 dögum fyrir aðalfund. Lagabreytingar þurfa 2/3 hluta greiddra atkvæða til að öðlast gildi.

Mál sem taka skal fyrir á aðalfundi eru:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara eftir tilnefningu stjórnar.
  2. Skýrsla stjórnar.
  3. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
  4. Ákvörðun um félagsgjald.
  5. Tillögur til lagabreytinga.
  6. Kosning formanns.
  7. Kosning tveggja manna í aðalstjórn og eins varamanns í stjórn.
  8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
  9. Önnur mál.

Fundarritari skal skrá fundargerð um það sem fjallað var um á aðalfundinum. Bóka skal sérstaklega allar samþykktir og ákvarðanir fundarins. Fundarstjóri og fundarritari skulu undirrita fundargerðina. Hana skal síðan birt á vef félagsins og veittur tveggja vikna frestur til athugasemda. Að þeim tíma telst fundargerðin samþykkt.

 7. gr. Félagsfundur

Félagsfund skal boða svo oft er þurfa þykir. Um boðun, lögmæti og atkvæðisrétt gilda sömu reglur og um aðalfund.

8. gr. Reikningar og endurskoðun

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar félagsins skulu endurskoðaðir af tveimur skoðunarmönnum sem kosnir eru úr röðum félagsmanna á aðalfundi til eins árs í senn.

9. gr. Slit félagsins

Berist stjórn félagsins skriflega tillaga frá minnst 10% félagsmanna um að félaginu verði slitið ber stjórninni að boða til sérstaks fundar um tillöguna innan tveggja mánaða frá móttöku hennar. Skal boðað til slíks fundar með sama hætti og aðalfundar félagsins og skal tillagan fylgja fundarboði. Um lögmæti fundarins og ályktunarbærni fer sem mælt er um í 4.mgr. 6.gr. félagslaga.

Á fundinum skal slík tillaga sæta meðferð eins og tillaga um lagabreytingu í félaginu sbr. 6.gr. laga félagsins. Til samþykktar á slíkri tillögu þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Sé slík félagsslitatillaga samþykkt skal fara með skiptin að hætti laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., eftir því sem við á, einkum XV. kafla laganna. Félagsfundur sem samþykkir með lögmætum hætti að félaginu skuli slitið skal jafnframt ákveða hvernig þeim eignum félagsins skuli ráðstafað, sem eftir kunna að standa þegar gerðar hafa verið upp allar skuldir félagsins og kostnaður við skiptin.

 10. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast gildi á aðalfundi félagsins 16. febrúar 2019.

 

Eldri samþykktir:

Samþykkt á aðalfundi félagsins þann: 24/2 2001

Lagabreyting samþykkt á aðalfundi 4. febrúar 2006 GBÁ

Lagabreytingar samþykktar á aðalfundi 6. febrúar 2010 SÞR

Lagabreytingar samþykktar á aðalfundi 4. febrúar 2012 RÖP

Lagabreytingar samþykktar á aðalfundi 8. febrúar 2014 SÞR

Lagabreytingar samþykktar á aðalfundi 16.febrúar 2019

Lagabreyting samþykkt á aðalfundi 11. febrúar 2023