Frá stjórn FHS til félagsmanna:

FHS 30 ára í ár – hlutverk þess og starfsemi

Upp úr miðjum áratug 20. aldar (1985) höfðu nokkrir Íslendingar keypt sér hús og/eða íbúðir á suðurströnd Spánar til dvalar í skemmri eða lengri tíma, og margir höfðu áhuga á slíku. Til að virkja þann áhuga og í krafti máttar samtaka, var boðað til stofnfundar FHS í nóvember árið 1989, svo sem lesa má um í sögu félagsins á heimasíðu. FHS fagnar því 30 ára afmæli á þessu ári.

Í fyrstu voru samgöngumál milli Íslands og Spánar efst á verkefnalista FHS, þ.e. samningar við ferðaskrifstofur, sem og að reyna að tryggja sanngjarna og örugga þjónustu við Íslendinga á Spáni, og að halda fólki saman varðandi aðstoð ýmis konar og þjónustu hvers kyns, sem og samveru og skemmtanir.

Þetta er gott að vita og hafa í huga varðandi fortíðina, en svo er það nútíðin og framtíðin sem er boðskapur stjórnar FHS. „Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja“ eru sönn spakmæli.

Staða og hlutverk FHS er nú önnur en áður var. Sífellt fleiri Íslendingar búa um lengri eða skemmri tíma á Spáni í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði. Þó svo að eðlilegt og æskilegt megi telja að það fólk tileinki sér spænska lifnaðarhætti, menningu og tungumál, þá er eðlilegt að halda hópinn. Stofnaður hefur verið félagsskapur „Íslendingafélagið á Spáni“, sem séð hefur um skemmtanahald og fræðsluferðir  um Spán. Stofnun þess félags er afar eðlileg og jákvæð.

Hefur það félag áhrif á starf FHS? Svarið felst í því, hvernig FHS tekst til á sínu sviði, sem er að tryggja sem best hagsmuni og hvers kyns öryggi Íslendinga á Spáni. FHS er fyrst og fremst hagsmunafélag Íslendinga á Spáni. Starfandi eru öryggisfulltrúar sem fólk leitar til af ýmsum ástæðum, og eru grunnlaun þeirra greidd af félagsgjöldum til FHS. Greiða þarf hóflega stillt þjónustugjöld fyrir útköll, en þeir sem ekki eru félagsmenn FHS greiða hærra gjald fyrir þjónustu öryggisfulltrúa.

Tekist hafa samningar við alhliða lögfræðiskrifstofu  MacLegal, þar sem félagsmenn FHS fá 20% afslátt frá verðskrá, sjá tilkynningu á heimasíðu FHS. Athygli er vakin á því, að þar er töluð íslenska, sem er afar mikilvægt þegar rætt er um lögfræðileg málefni, sem og skattamál.

Þá hefur tekist samvinna FHS við einkarekna læknisþjónustu, Dr. J.M. Paz Fajardo, þar sem félagsmenn FHS fá 25% afslátt frá verðskrá. Þessi læknastofa hefur gott orð, veitir fljóta þjónustu á læknastofu, og kemur heim til fólks, sé þess óskað, sem er ómetanleg þjónusta við t.d. eldra fólk og/eða ef um snögg veikindi er að ræða. Sjá tilkynningu á heimasíðu FHS.

Unnið er að frekari öryggis- og þjónustumálum fyrir félagsmenn FHS. Nánar tilkynnt síðar.

Stjórn FHS