Hvenær komumst við?

Ágætu félagsmenn FHS, fréttapistill stjórnar!

Flest okkar hafa þurft að sætta sig við að sitja heima vegna þessa Covid-19 ástands, og láta hugann reika um umhverfi okkar á Spáni og allt það sem þar er hægt að skoða og njóta. Sagt er að öll él birti upp um síðir og höfum við vafa lítið kynnst því í lífinu að svo sé. Nú getum við vænst þess að komast til Spánar vonandi síðsumars eða í haust.

FHS hefur haldið starfsemi gangandi eins og þið hafið orðið vör við á heimasíðu og fésbókarsíðu FHS. Einnig hefur öryggis- og þjónustufulltrúi FHS sinnt starfi sínu vel og margir bæði félagsmenn FHS sem og aðrir Íslendingar sem staddir eru á Spáni notið leiðsagnar hans.

Fjárhagsstaða FHS er afar góð, en reikningar eru aðgengilegir félagsmönnum á heimasíðu félagsins, sem og skýrsla stjórnar fyrir síðasta starfsár.

Ánægjulegt er að geta sagt frá því að stöðugt fjölgar í félagi okkar og frá áramótum hafa 27 nýjir félagsmenn komið í okkar hóp. Árgjald Í FHS er einungis 5.000,00 krónur á hverja húseign eða einstakling, sem ekki á húseign en það er ekki nauðsynlegt að vera húseigandi á Spáni til að gerast félagsmaður í FHS. Slíkt gjald borgar sig fljótt ef t.d. skoðaðir eru þeir afslættir sem félagsmenn njóta og nefndir eru á heimasíðu undir fyrirsögn  Afsláttarbók. Við í FHS söknum gamalla og góðra félaga og beinum því til þeirra hvort ekki sé ástæða til að koma til baka í félagsskapinn.

Eins og kom fram í ársskýrslu stjórnar, sem þið hafið undir höndum og birt er á heimasíðu FHS, þá hefur verið unnið að kerfi viðurkenninga til þeirra þjónustuaðila á Spáni sem veita félagsmönnum sérstaklega góða þjónustu. Ætlunin er að koma þessu kerfi á í haust, ef stjórn og félagsmenn komast til Spánar með góðu móti. Þá verður viðhöfn og auglýst sérstaklega.

Stjórn FHS hefur unnið að möguleikum félagsmanna á samningum við raforkufyrirtæki á Spáni um lækkun rafmagnsverðs. Hefur það verkefni farið vel af stað og þegar verið nokkrir samningar gerðir við þetta raforkufyrirtæki. Hver félagsmaður gerir samning án aðkomu FHS, en eftir umsömdu kerfi.

Þá hefur verið reynt að endurvekja gamlan og góðan grunntilgang FHS um hagstæð flugfargjöld til Spánar. Samið hefur verið við flugfélagið Aventura, sem er í eigu Íslendings Más Ingólfssonar Guðbrandssonar, um afslátt á flugferðum nú um Páskana, en unnið er að ferkari samningum. Það er hins vegar ljóst, að ef eðlilegt ástand kemst á ferðalög milli landa, þá er erfitt að ná einhverjum samningum í þessari hörðu samkeppni sem ríkir í fluginu. En byrjunin hjá okkur lofar góðu.

Ritað 28. dag marsmánaðar 2021. Með von um skjóta og góða endurfundi. Stjórn FHS.

Deila: