Stjórnarpistill Maí

Það er komin tími á stjórnarpistil.   Stjórnin núna tók við á aðalfundi í febrúar og hafa verið haldnir tveir stjórnarfundir síðan þá en þeir verða reglulegir einu sinni í mánuði hér eftir.  Stjórnarmenn þetta árið eru dreifðir og erfitt að koma öllum saman þar sem hluti hópsins er á Íslandi og annar hluti á Spáni.  Vegna þessa höfum við gripið til tækninnar og fundum yfir netið með aðstoð tækninnar.

Við höfum hingað til ekki sent mikið efni frá okkur en það stendur til bóta með hækkandi sól.

Félagið hefur ákveðið að draga sig út úr viðburðum öðrum en aðalfundi og grísaveislu sem haldin er í febrúar ár hvert og þá hér á Íslandi.  Frá þessu var greint á aðalfundi í febrúar s.l.. og er áréttað hér.  Við munum þó benda félagsmönnum á viðburði sem eru á Spáni og bendum félagsmönnum á að fara inn á viðburðadagatal sem er á  heimasíðunni, sjá meira um það hér á eftir.

Okkar helsta verkefni er og verður að efla öryggisnetið okkar sem við byrjuðum á í fyrra.  Í því sambandi má geta þess að við höfum nýverið klárað að semja eftirfarandi aðila um að gegna starfi öryggis & þjónustufulltrúa FHS.

Ásgerður Ágústa Andreasen með aðsetur í Playa Flamenca í Orihuela Costa.  Ásgerður hefur verðið þjónustu & öryggisfulltrúi frá því í febrúar s.l. og samstarfið við hana verið hnökralaust og einstaklega gott.  Á þessum stutta tíma sem hún hefur verið með okkur þá hefur Ásgerður haft allmikið að gera við að gefa FHS félögum ráð um eitt og annað í gegnum síma en líka hefur hún þurft að sinna félagsmönnum með því að vera með þeim á vettvangi og þá oftast til að túlka fyrir viðkomandi.  það hefur komið fyrir að mál hafa komið á hennar borð samtímis en hingað til hafa málin reddast með aðstoð annara velviljaðra landa okkar sem eru í bakvarðasveitinni.  Á þessum stutta tíma þá safnast í sarpinn nytsamlegar upplýsingar sem vert er að halda utanum og birta á heimasíðunni okkur til upplýsingar.

Jóhanna Soffía Símonardóttir með aðsetur í La Marína er u.þ.b. að hefja störf fyrir okkur, við erum að koma á hana síma, þegar hann er komin er henni ekkert að vanbúnaði.  Jóhanna er búin að vera búsett á Spáni frá 2009.  hún talar bæði spænsku og ensku.  Hún hefur verið að vinna á fasteignasölu á Spáni og aðstoðað viðskiptavini með eitt og annað sem snýr að fasteignaviðskiptum sem og flutningum til Spánar.   Með ráðningu Jóhönnu er kominn öryggis & þjónustufulltrúi í La Marina en að auki má geta þess að stjórnarmaður í FHS Ásta Dóra Valgeirsdóttir er með hús í La Marina og má því segja að núna verði félagsmenn í La Marina með sérstaklega góðan aðgang að FHS.

Þjónustu & öryggisfulltrúar er ætlað að eiga saman gott samanstarf sín í milli og er tilgangurinn að vera með góða og samstillta einstaklinga til að gæta að öryggi okkar.  Eflist félagið í félagafjölda verður skoðað að setja niður fleiri fúlltrúa á dvalarstöðum íslendinga á Spáni en í krafti fjöldans er það vel hægt.

Við höfum fengið ábendingar um að utanfélagsmenn hringi þjónustusíma FHS og biðji um þjónustu.  Öryggisfulltrúar okkar svara þessum erindum þegar því er viðkomið en benda líka á að síminn sé fyrir félagsmenn FHS og félagsmenn ganga fyrir.

Við höfum sett upp netfang hjalp@beta.turteldufur.is en póstur sendur þangað mun rata á öryggis & þjónustufulltrúa sem eru með okkur á hverjum tíma.  Mjög fljótlega verður hægt að senda póst frá heimasíðu FHS.  Við biðjum félagsmenn um að gefa upp númerið sem er á félagsskirteinum ykkar þegar rafpóstur er sendur á þetta netfang.

Við vorum í viðræðum við aðra bílaleigu um samning og var það komið vel á veg þegar tengiliður okkar við bílasöluna hætti skyndilega störfum.  En við höfum áfram augun opin fyrir tækifærum.

Varaformaðurinn okkar er að hefja skoðun á möguleika á afsláttarmiðum hjá flugfélögum.  Þetta er verkefni á algjöru byrjunarstigi og ekki meira um það að segja í bili en við stillum þó væntingum í hóf að fenginni reynslu frá árum áður.

Við viljum virkja hópinn og hvetjum alla FHS félaga sem vilja vinna með okkur um að gefa sig fram. Margar hendur gera allt starf léttara sem og félagið sparar fjármuni sem nýta má á annan og betri máta sbr öryggisnetið.  Sem dæmi vil ég nefna Þröst Kristófersson sem aðstoðar okkur með heimasíðuna og sparar okkur fjármuni þar sem við þurftum að kaupa þessa þjónustu áður.  Þá skal nefna Karl Kristján Hafsteinn Guðmundsson en hann á t.a.m. viðburðardagatalið sem er á heimasíðunni hjá okkur og setur upplýsingar þar inn samviskusamlega og af áhuga.   Ég nefni Bjarna Jarlsson gjaldkera okkar og fyrrum formann, hann þekkir bókhald og mun sjá um bókhaldið í ár og spara okkur kaup á þeirri vinnu.   Síðast en ekki síst má ekki gleyma þeim aðilum sem hafa tekið að sér að undirbúa og sjá um grísaveislu FHS undanfarin tvö ár og er skemmtinefnd númer þrjú að mestu skipuð en ef einhver er tilbúin að koma inn í nefndina þá er sá hin sami velkomin.  Á næsta ári er félagið okkar 30 ára og í mörg horn að líta hjá næstu skemmtinefnd sem er þunnskipuð eins og er.

Munum að við erum í þessu saman.

Bestu kveðjur

Víðir Aðalsteinsson

Deila: