Stjórnarpistill – Maí

Við höfum reynt að senda frá okkur nokkrar línur eftir hvern stjórnarfund.  Þessi pistill er seinna á ferð en ætlað var en betra er seint en aldrei.  Um Páskana voru allir stjórnarmenn erlendis þar af sex á Spáni og einn í USA.  Víðir, Bjarni, Valgarð og Katrín fóru öll í vorferð FHS 20. Apríl og tókst ferðin mjög vel þó sterkur vindur hafi sett strik í reikninginn, en frásögn og myndir má finna hér á síðunni.  Á sama tíma og við vorum úti þurfti starfsmaður okkar á Spáni Hanna María að koma til Íslands en á meðan bar Ágústa Pálsdóttir öryggis símann.

Víðir og Bjarni áttu góðan og upplýsandi fund með viðburðastjóranum okkar Guðmundi Sigurbjörnsyni  „Gumma“ og var ákveðið að hittast aftur í sumar þegar hann verður hér heima.

Hér á síðunni hefur verið sagt frá fundi Víðis og Bjarna með Manuel Zerón hjá Cove Advísers en á þeim fundi var samstarf milli aðila handsalað.  Við væntum þess að samstarf við Cove Advisers verði farsælt og hagstætt fyrir báða aðila sem og félagsmenn en þess má geta að Manuel Zerón hefur og er að vinna fyrir marga íslendinga nú þegar.

Í febrúar var sagt frá áhuga okkar á að mynda hóp félaga sem við köllum „Liðsmenn FHS“ því miður hafa undirtektir ekki verið eins og lagt var upp en við ítrekum ósk okkar hér.  Áhugasamir félagsmenn endilega láta vita með því að senda okkur póst á netfangið fhsvidir@gmail.com

Það eru nokkrir boltar á lofti þegar þetta er ritað sem unnið er að og má í því sambandi nefna:

Heimasíðuna en hún er í vinnslu og komin mynd á hana.  Við stefnum á að setja hana í loftið nú í sumar.

Öryggisnetið, það er verkefni sem við hlöðum utaná smátt og smátt og er t.a.m. samstarfið við Cove Adviser hluti af því.

Flutningamál,  við sendum öllum íslenskum flutningsaðilum tölvupóst og spurðum þá út í flutningamál til og frá svæðinu.  Við erum enn að bíða eftir svörum frá nokkrum aðilum en þegar allt er komið þá setjum við upp síðu um þetta efni.

Facebook en við viljum auka upplýsingar þar og um leið fá fleiri fylgjendur því að góð facebook síða með marga fylgjendur er verðmæt fyrir félag eins og okkar.

Golfið er síða sem við viljum efla og mun Ómar Karlsson halda utanum til að byrja með a.m.k..  Því miður er er takmarkaður golfáhugi meðal stjórnarmanna en ef einhver er þarna úti til að koma að málum með Ómari þá er sá félagsmaður velkominn.

Fyrstu skrefin, er hugmynd á frumstigi en við vorum spurð að því úti að við þyrftum að vera upplýsandi fyrir nýja íbúa, þ.e. svara spurningum eins og á að leigja eða kaupa? Ábendingar um leigumiðlanir sölusíður o.s.f.

Viðburðir á Spáni við viljum segja frá viðburðum sem íslendingar á svæðinu standa fyrir og höldum t.a.m. úti viðburðardagatali sem við viljum að sé lifandi og uppfært.   Til þess þurfum við að fá ábendingar til okkar.  Við tökum fagnandi á móti frásögnum af viðburðum og höfum nú þegar gengið í tvígang frásögn frá gönguklúbb í Las Mímosas.  Allir íslendingar sem standa fyrir viðburðum á Spáni er velkomið að koma efni til okkar og við setjum á síðuna hjá okkur, enn betra ef það myndu fylgja með myndir.

Að lokum þá óskum við ykkur öllum gleðilegs sumars.

Stjórn FHS

Deila: