|

Stjórnarpistill

Ágætu FHS félagar.

Nú tveim vikum eftir aðalfund þar sem ný stjórn tók við þá þykir okkur rétt að senda frá okkur þessi skilaboð sem sett eru á opið svæði en hér í frá munum við setja inn fréttir og fundagerðir á lokað svæði þar sem notandi þarf að skrá sig inn á vefinn til að lesa stjórnarfréttir.

Haldnir hafa verið tveir stjórnarfundir fram að þessu og hefur verið ákveðið að stjórnarfundir verði síðasta  mánudag í hverjum mánuði og næst mánudaginn 27.mars.  Þess á milli hittast aðilar til að sinna verkefnavinnu.

Að efla okkur innávið er áhersla stjórnar þetta starfsár.

Við höfum sett af stað vinnu við að setja upp nýja heimasíðu en eins og margir hafa tekið eftir þá er síðan okkar núna afar þung í notkun bæði fyrir almennan félagsmann sem og stjórnarmenn.  Þessi vinna er farin af stað og vonandi getum við sagt frekari fréttir fljótlega.

Við höfum verið að fara yfir félagatal og borið það saman við skráða notendur að heimasíðunni.  Það fara nokkrar vinnustundir í þetta verkefni.   þeir einir sem greitt hafa félagsgjald eiga að hafa aðgang að innri vef síðunnar og fá fréttir sem eru eingöngu fyrir félagsmenn.  Við viljum biðja félagsmenn sem hafa greitt árgjald og ekki komast á innri vef, sem og þá sem vilja ganga í félagið um að senda okkur póst á netfangið gjaldkeri.fhs@gmail.com .  Það skal tekið fram að það þarf ekki að vera húseigandi á Spáni til að gerast félagsmaður og er bent á lög félagsins 4 málsgrein.

Við höfum fundað með fulltrúa ræðismanns Spánar á Íslandi og er gagnkvæmur vilji á samstarfi.  Þetta samstarf er á byrjunarstigi.

Við höfum stofnað nýtt hlutverk á Spáni „Viðburðarstjóri FHS á Spáni“.  Það hefur verið ráðið í þetta hlutverk og munum við kynna fljótlega hver það er.

Við erum svo lánsöm að hafa aðgang að íslendingum sem vilja aðstoða okkur á Spáni við hvaðeina sem upp kann að koma.  Þessa aðila er að finna á síðunni.  Við munum fljótlega byrja að kynna þessu flottu aðila sem mynda það sem við kjósum að kalla öryggisnetið okkar og byrjum á Hönnu Maríu sem er í dag með neyðarsíma FHS.  Við sama tækifæri munum við upplýsa um verðskrá þjónustuaðila.

Það hefur verið spurt um flugsamning,   staðan er óbreytt og verðum við að búa okkur undir að vera ekki með neinn flugsamning þetta árið.  Vegna þessa höfum við sett á síðuna upplýsingar um leitarvélar fyrir flug og er hugmyndin að við félagsmenn miðlum reynslu um flugmál og hvernig best er að komast ódýrt til og frá Spáni.

Stjórn FHS vil eiga gott samstarf við aðra FHS félaga og virkja sem flesta þeirra til þátttöku.  Félag okkar er ekkert annað en við einstaklingarnir sem myndum félagið og eigum við öll saman að vinna að því að eflast sem hópur og miðla upplýsingum og reynslu okkar til annarra.   Stjórn mun leggja árherslu á að fá sem flesta félagsmenn til að vinna með okkur að verkefnum og jafnvel taka að sér verkefni.  Skemmtinefnd var skipuð til að sjá um árshátið á Íslandi fyrr í þessum mánuði og tókst afar vel til.  Ný skemmtinefnd hefur tekið við keflinu og undirbýr árshátíð 2018.  Ný viðburðarstjóri FHS á Spáni mun án efa kalla til félaga til að undirbúa viðburði þar. Það væri fróðlegt og skemmtilegt ef félagar sem lengi hafa verið í FHS væru til í að mynda Sögunefnd til að safna saman efni um sögu félagsins og koma til félagsmanna í gegnum heimasíðu okkar, við óskum við eftir umsóknum

Þá viljum við mynda hóp félaga nokkurs konar „Liðsmenn FHS“ þetta væri hópur virkra félaga sem eru til í að vinna með stjórn og tala málið þess út á við.  Þessir aðilar fengju fréttir frá stjórn umfram aðra félaga og undir þennan hóp væru bornar hugmyndir áður en þeim er ýtt í framkvæmd o.s.frv.  En í okkar hópi er án efa mikil og margvísleg þekking sem okkur langar til að virkja og koma á blað fyrir aðra félagsmenn.  Með þessu viljum við líka stækka hópinn og virkja sem flesta og hafa ófáir vinahópar myndast eftir svona samvinnu.     Áhugasamir eru beðnir um að senda okkur línu á fhsvidir@gmail.com

Við viljum efla okkur á Facebook en fljótlega ættum við að sjá merki þess þannig að endilega fylgið okkur á Facebook.  Facebook verður þó ekki vettvangur stjórnarfrétta eða fundagerða þær fréttir verða eingöngu settar á heimasíðu.

Gerum þetta saman þá verður allt miklu léttara og skemmtilegra.

Stjórn FHS

Deila:

Skildu eftir svar