Ágætu FHS félagar
Undanfarin tvö ár hafa stjórnir félagsins lagt aðal áherslu á öryggismálin og öryggistilfinninguna sem er okkur mörgum svo mikilvæg. Félagsgjöld greidd í félagið í dag fara að mestu leiti í þennan mikilvæga málaflokk.
Öryggis & þjónustufulltrúar okkar í dag eru tveir þær Ásgerður Ágústa Andreasen og Jóhanna Soffía Símonardóttir, báðar hafa búið lengi á Spáni, tala góða spænsku og hafa mikla þjónustulund. Þær eru með síma sem félagið á og rekur og FHS félagar geta alltaf hrint í.
Reynslan segir okkur að rétt hafi verið að setja áhersluna á þennan málaflokk því dæmin sanna að það er eitt og annað getur komið upp í okkar litla samfélagi á Spáni og þá er gott að vita að aðstoðin er til staðar.
Vinnan sem þær Ásgerður og Jóhanna vinna fyrir félagsmenn fer ekki hátt og er ekki sýnileg og mikilvægt að góður trúnaður verði á milli þess sem veitir þjónusta og þess sem hana þyggur hverju sinni því málin geta verið viðkvæm.
Til að gefa smá innsýn þá snýst aðstoð þeirra mikið um heilsufarslegt öryggi félagsmanna. Það eru ófáar ferðir sem fulltrúar okka rhafa farið á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar með einstaklinga til að túlka fyrir þá og fylgja í gegnum allt ferlið í mörgum tilfellum. Biðtímar eru oft margir þar sem læknar vilja stundum láta bíða eftir sér.
Það má geta þess að þær geta látið gefa út reikning fyrir túlkaþjónustu ef beðið er um það, í þeim tilfellum geta félagsmenn farið með kvittun í tryggingfélag sitt hér heima og fengið kostnað endurgreiddan.
En fulltrúar okkar aðstoða líka við annarskonar mál, þær aðstoða félagsmenn í samskiptum við fyrirtæki og stofnanir sem og umferða og lögregluyfirvöld. Þá veita þær félagsmönnum okkar ókeypis ráðgjöf í síma og benda á iðnaðarmenn ef þess gerist þörf.
Við metum það svo að m.v. óbreytt félagsgjald þá eru um 150 félagsmenn á bak við hvern öryggis & þjónustufulltrúa. Ef félögum fjölgar stendur okkar vilji til að bæta við þessa þjónustu og þá víðar á Spáni þar sem félagsmenn FHS eru.
Því miður er það svo að aðrir en félagsmenn eru að nota símana okkar, aðilar sem annað hvort vita ekki betur eða eru ekki tilbúnir til að koma að kostnaði við að halda úti þessari þjónustu. Sumir halda að þetta sé bara einhver ókeypis þjónusta sem varð til uppúr engu eða halda að þjónustan sé á vegum íslenska ríkissins.
Við höfum því farið fram á við öryggisfulltrúa okkar að þeir biðji þá sem hringja um félagsnúmer sem allir félagsmenn eiga að hafa og er að finna á félagsskyrteinum sem gefin hafa verið út.
Það þarf ekki að taka það fram að símanúmerin hjá fulltrúum okkar er að finna á heimasíðunni og til þeirra er líka hægt að senda tölvupóst á netfangið hj***@be**.is