„Neitun um flug með British Airways frá London Heathrow til Alicante 10. október 2020“
Ágætu FHS félagar á Spáni og Íslandi
Hér á eftir fer frásögn 2ja ferðalanga á dögunum frá Íslandi til Spánar og segir frá ferðalagi þeirra, óþægilegum atvikum og síðan frábærri aðstoð og þjónustu Borgaraþjónustunnar þegar á þurfti að halda.
Góðan dag,
Laugardaginn 10.október hóf ég ferð með British Airways í gegnum London Heathrow til Alicante á Spáni. – Við bókun (í gegnum dohop) var mér tjáð að ég yrði að gera þetta í tveimur bókunum og því var ég með tvær bókanir, Keflavík-Heathrow og Heathrow–Alicante.
Þegar ég innritaði mig on-line fékk ég ekki boarding spjald fyrir legginn Heathtrow- Alicante og sagt að ég yrði að sækja hann á flugvellinum. Ég hélt að þetta væru einhverjar „covid“ ráðstafanir og vissi að ég mætti fljúga áfram og lagði af stað.
Á Heathtrow mætti mér eins óvinsamlegt fólk og hægt er að hugsa sér og sagt að ég fengi ekki að fara áfram. Ég hringdi í Borgaraþjónustuna og talaði við konu þar sem var einstaklega hjálpsöm og þið eigið alveg hrós skilið hjá Borgaraþjónustunni fyrir hjálpsemina og öll þau úrræði sem voru reynd. – Hún hafði samband við sendiráðið í London, og sendiherra okkar í París, og þær báðar töluðu beint við yfirmann British Airways á flugvellinum, en alveg sama.. – Neitun.
Þær sögðu mér að biðja British Airways að hringja í UK Border Control, en það var lítið hlustað á það. Þegar svo var komið, sagði yfirmaðurinn að hann ætlaði að hringja í „station manager“ í Alicante og ef hann hleypti mér áfram þá færi ég næsta dag, því þarna var aðeins 15 mín í brottför og að það væri búið að loka „gate“. – Að lokum kom hann með símann og rétti mér hann og þá var kona sem hellti sér yfir mig og sagði að mér væri ekki leyfilegt að koma frá UK. Taldi að auki upp alls konar lönd. Svo ég spurði hana.. „Ertu að segja, að ef ég hefði komið í gegnum t.d Kaupmannahöfn, þá hefði þetta verið í lagi?“ ..og hún sagði „já“. – Þarna var litið á að ég væri ekki að koma frá íslandi, þrátt fyrir að ég væri með bókun með sama flugfélagi sama dag og eingöngu með handfarangur og þurfti því bara að ganga í gegn. Hún sagði að spænsk yfirvöld neituðu að taka við mér.- Til að losna við mig (held ég) bókuðu þeir fyrir mig hótel og heimferð daginn eftir.
Þegar ég kom á hótelið fékk ég símtal frá systur minni og mági sem höfðu lent í því sama, en þá var þeim hleypt áfram (saga þeirra er hér að neðan ). – Þá hafði fólk komið deginum áður í gegnum London Luton með Ryanair og gist eina nótt á hóteli. Þau hvöttu mig til að prófa það. Þar sem ég var ekki tilbúin að gefast upp prófaði ég að bóka mig á netinu og innrita mig og það gekk. Þarna var ég komin með brottfaraspjald en komin á hótel á Heathrow flugvelli. – Ég ákvað að láta reyna á þetta, fékk staðfestingu á að ég hefði gist eina nótt og tók leigubíl út á flugvöll. Fékk einnig staðfestingu á því þar, að hann hefði náð í mig á hótelið og keyrt mig út á flugvöll til að sýna ef með þyrfti að ég hefði farið út af flugvellinum.
Í stuttu máli, gekk allt upp, ég var ekki spurð að neinu, notaði mitt brottfararspjald og var komin til Spánar að kvöldi 11.október, degi síðar en ég ætlaði, með aukakostnað upp á 20-30.000 krónur. Engar athugasemdir voru gerðar á flugvellinum í Alicante, ég var með öll gögn með mér og búin að fylla út á netinu til að fá QR kóða sem er skannaður og með því vita yfirvöld að þú ert í landinu.
Samantekt á þessu er sú, að British Airways fylgja ekki þeim reglum sem flugvöllurinn sjálfur setur eða yfirvöld í Bretlandi. – Þess bera að geta, að það voru íslendingar með mér í vélinni til London sem höfðu bókað farið á heimasíðu British Airways og fengið eina bókun alla leið, eitt bókunarnúmer og fengu því tvö brottfararspjöld í Keflavík. – Þannig að ef þú ert með brottfararspjald með þér frá íslandi þá kemstu í gegn, en ekki ef þú þarft að fá það í „transit“…. Þetta er náttúrlega eins mikið rugl og hugsast getur.
Ég ætla að ljúka þessu með því, að enn og aftur hrósa ykkur frá Borgaraþjónustunni og ég var orðlaus þegar ég fékk símtal í gær þar sem þið væruð að fylgja málinu eftir. Ég man því miður ekki nafnið á þeim manni. Það er svo sannarlega gott að vita af ykkur á þessum síðustu og verstu tímum.
Með kveðju / Best regards,
- – – – – – – – –
Frásögn 2 – Heathrow upplýsingar
Ég ferðaðist ásamt konu minni og vinafólki (4 samtals) til Spánar 27.september 2020, með Icelandair til London Heathrow og svo áfram með British Airways til Alicante. Ég lenti í því sama og mágkona mín (sjá hér að ofan), en málin leystust á síðustu stundu eftir næstum 3 klst. þras. – Þá var ég í sambandi við starfsmann hjá Borgaraþjónustunni. – Ég vil koma því að, að hún var einstaklega hjálpsöm og hélt vel utanum okkur allan tímann. Við viljum koma þakklæti á framfæri fyrir hennar framlag. – Hér er það sem starfsmaðurinn sendi mér ef það gæti hjálpað eitthvað :
Starfsmaður Borgaraþjónustunnar skrifar.. “British Airways má því hafa samband við UK border ef þau vilja fá þetta staðfest” – Það vildi starfsfólk BA á „ticket desk“ svæði ekki gera og fór það svo, að UK Border hafði samband við öryggisfulltrúa BA sem hafði samband við okkur í síma og bað okkur um að gefa sér samband við starfsmann á „ticket desk“. Sá vísaði okkur frá og sagðist ekki taka símann.. “hann væri ekki að vinna þarna við að tala í síma og mætti það ekki“.
Að endingu kom öryggisfulltrúi BA á svæðið til okkar, fann yfirmann á svæðinu sem reyndar var búinn að vísa okkur frá áður. Á síðustu stundu gátu þau skráð okkur inn með aðstoð einhvers tölvumanns á bak við tjöldin sem þurfti að fara í tölvukerfið þeirra. Þetta var allt á síðustu stundu hjá okkur og mjög óþægilegt allt saman.
Niðurstaða er, að tölvukerfið BA er forritað þannig að starfsmenn BA á Heatthrow geta ekki tékkað inn íslendinga sem ætla að gera það sjálf á Heathrow. Ef tékkað er inn alla leið frá Íslandi með BA og brottfararspjöld fengin þar, eru menn ekki í vandamálum. Á bara við þegar tékkað er inn fyrir legginn frá Heatrhrow til x – í okkar tilfelli, til Alicante.
Kveðja,
————— ———
Svo mörg voru þau orð.
Utanríkisráð Íslands hefur einnig sent frá sér tilkynningu um hvað og hvers ber að gæta þegar pantað er og farið í tengiflugi á milli landa.
Már Elison
Öryggis – og þjónustufulltrúi FHS á Spáni