Aðsend grein – gangan í þjóðgarðinum seinni hluti.

Eftirfarandi grein kom frá FHS félaga Niels Karlssyni þar sem hann segir okkur frá seinni hluta gönguferðar um þjóðgarð Parque Regional Callblanque. En þeir sem ekki lásu fyrri hluta þá er hann hér.  Við tökum fagnandi við svona greinum og birtum hér á vefnum okkar en hann er m.a. til þess að segja frá hverskonar viðburðum á Spáni.  Endilega sendið okkur greinar á netfangið umsjon@beta.turteldufur.is og við birtum hér á vefnum.

Við vorum 14 sem komum saman um klukkan hálf níu þriðjudaginn 18. apríl í þeim tilgangi að ljúka göngunni sem flest okkar fóru 30. mars, sællar minningar, í þjóðgarðinum Parque Regional Calblanque. Héldum við af stað um kl. 9 í fjórum bílum og höfðum sama hátt á og síðast, skildum einn bíl eftir við endamark göngunnar á strönd bæjarins Cala Flores og fórum síðan saman í hinum þremur að upphafsstaðnum sem jafnframt var endastaður fyrri göngunnar. Veður var með eindæmum gott og gangan hófst um kl. 10.30. Vitað var að þessi hluti göngunnar var 7.5 km að lengd, fyrstu 5 km ofan strandlengju en síðustu 2.5 km yfir klettabelti meðfram vogskornum sjónum. Því var um mun auðveldari göngu að ræða en í fyrra skiptið og þar með gafst meiri tími til að dást að stórkostlegri náttúrunni, jafnt dauðri sem lifandi. Það voru ánægðir göngufélagar sem luku göngunni um 3 klst síðar. Hér fylgja nokkrar myndir. Nú þegar er farið að huga að hugsanlegum gönguferðum næsta haust og munu upplýsingar um þær væntanlega birtast á facebook-síðunni Gönguklúbburinn í Las Mimosas þegar nær dregur.

Deila: